Geta þeirra á fjöllum ber af og ekki þarf að hafa áhyggjur af því að það falli á fínheitin. Eignaðist þennan bíl nýjan í sumar (2025) Defender 110 eftir að hafa haft efasemdir um að þessi Rover hentaði mínum áhugamálum.

Reynsluakstur sannfærði mig þó um að þetta væri áhugaverður kostur. Eins og vitað var fer þessi bíll vel með mann og annan og skilar ökumanni og farþegum nánast óþreyttum austur á Egilsstaði.
Innréttingin er hugsuð út frá notagildi og öll þrif jafn einföld og í klassískum Defender. Það sem kom á óvart er hversu öflugur óbreyttur bíll er í ófærum. Loftpúðafjöðrunin er mun slaglengri en í teppalögðum systkinum og lyftir bílnum hátt. Fram og afturhjól eru alveg á hornum bílsins sem auðveldar mjög að fara upp bratta árbakka og kröpp horn.

Það tók nokkrar mínútur að finna hvaða drifkerfi hentaði aðstæðum en síðan var ekkert mál að láta bílinn lalla yfir stórgrýti í grýttri á og minnti hann þar á eldri bróður sinn nema að mýktin er mun meiri.
Þessi eðalvagn er snúruhlaðinn blendingur rafmagns og bensíns. Í drætti er hægt að nota rafmagnið sem viðbót og láta það létta undir í brekkum.



Það kom mjög vel út enda var farið með Hýsið 4 þúsund kílómetra í sumarfríinu sem segir alla sögu um ágæti bílsins. Vel fer um Max í skottinu og Range Rover vön frúin brosir hringinn. Þetta er frábær ferðafélagi sem sameinar þægindi og getu í ófærum.
Bjarni Sigurðsson