Lagt var af stað í blíðviðri frá Olis við Rauðavatn kl. 9:03 og ekið sem leið lá að Tungufelli í Hrunamannahreppi þar sem farið var inn á afrétt Hrunamanna rétt austan Hvítár. Þar bættust fleiri í hópinn og héldu alls 12 bílar með tæplega 30 manns og tvo hunda innanborðs áfram för.

Áfram var haldið inn á línuveg og beygt í austurátt. Eftir að ekið var yfir Heiðará var farinn slóði í suðurátt, drjúgan spotta að gljúfrum Stóru Laxár. Þar var stoppað og gengið að gljúfrunum fögru og hrikalegu.


Nú var haldið til baka upp á línuveg og ekið áfram til austurs. Aftur var beygt út af línuveginum austan Svartár og nú var stefnan tekin til norðurs í átt að skála Suðurlandsdeildar 4×4 við Sultarfit. Þar var áð og borðað nesti í sólinni og skjóli af skálanum.



Því næst var haldið áfram í norður átt í björtu og fallegu, en köldu veðri með flottu útsýni til Kerlingafjalla og inn á Langjökul. Slóðinn lá um fjölbreytt landslag mela og grýttari svæða, með einstaka ám inn á milli. Ekið var áfram þar til komið var að slóðamótum þar sem valið stóð á milli þess að fara inn að Setri eða í átt til byggða að Svínárnesi.

Þarna var áð um stund, spjallað saman og notið útsýnisins og veðurblíðunnar í hálendiskyrrðinni sem var stórkostleg þennan dag.






Þar sem langt var liðið á daginn var ákveðið að halda í átt að Svínárnesi. Gekk ferðin greiðlega yfir mela, grjót og ár, þar til viftureim gaf sig í einum bílnum. Auka reim var með og vanir menn kipptu þessu í liðinn fljótt og örugglega.





Að lokum var ekið áfram inn á línuveginn aftur og niður undir Tungufell þar sem menn stoppuðu og kvöddust. Þessari frábæru ferð var formlega lokið og nú fór hver til síns heima.
Árni Árnason